Ragnheiður með "innlegg í Tilveruna"
Það er margt búið að breytast frá því ég bjó
á Gunnarsstöðum sem barn.
Núna bý ég ásamt Atla manninum mínum á Gran Canaria sem er lítil eyja sem tilheyrir Spáni en er úti fyrir ströndum
Afríku.
Þar starfa ég sem fararstjóri á veturna fyrir íslenska ferðamenn. Sýni þeim eyjuna og er þeim innan handar ef eitthvað kemur upp
á.
Í því starfi þarf maður að taka sér ýmislegt fyrir hendur og margt óvænt sem kemur upp á. Man ég sérstaklega eftir
einni ferð þar sem farið var með hóp af fólki á spænskan sveitabæ.
Fengum við meðal annars að fara á asnabak. Fékk þá eigandinn þá flugu í höfuðið að athuga hvort við
fararstjórarnir gætum ekki staðið upp á ösnunum.
Að sjálfsögðu neitar maður ekki svona áskorun og klöngraðist ég upp á asnann. Það gekk stórslysalaust fyrir sig en það
kætti farþegana mína mjög þegar vinnusíminn
byrjaði að hringja þar sem ég stóð upp á asnanum. Þar sem þetta var neyðarsíminn var ekki annað í stöðunni en að
svara og afgreiða málið standandi upp á asnagreyinu.
Meðan ég bjó á Íslandi þá kom ég heim í sveitina á Þorrablót ef ég mögulega gat. Núna er
búið að skipta þeirri hefð út fyrir aðra. Á Kanarí er á þessum tíma svo kallað Karnival sem er mjög stór
hátíð sem stendur yfir í heilan mánuð. Þar eru ýmiskonar uppákomur en eitt aðal kvöldið er þegar risa stór
skrúðganga fer um bæinn og allir klæða sig í búninga. Við Atli skelltum okkur að sjálfsögðu í búning líka, hann
klæddur sem íslenskur sjóari (kom sér vel þegar byrjaði að hellirigna um kvöldið) og ég sem ekta túristi á ströndinni,
í Kanarí handklæði og með snorkl græjur á hausnum.
En þó ég búi í margra tíma fjarlægð frá sveitinni minni þá er eitt sem hefur ekki breyst, ég verð að komast
í sauðburð. Á hverju ári kem ég í sveitina og sé um næturvaktina ásamt Sunnu systur minni. Ég hef alltaf jafn gaman af
því að taka þátt í sauðburðinum og hef gott af því að upplifa smá næturfrost og ganga í snjógalla í
maí. Ég fór úr 25° hita, sól og sandi, í frost, nokkra daga samfellda snjókomu og ullasokka en hefði hvergi annars staðar viljað
vera.
Sunna Björk fjallhress á næturvaktinni.