Í þokunni.
,, Hlakkar þig nokkuð til gagnanna” þessa spurningu var Óttar, strákur af næsta bæ,búinn að leggja fyrir mig síðastliðna viku í hvert sinn er við hittumst.
,, þú’’ svaraði ég alltaf ákveðinn.
,,það þýðir nú bara ekkert fyrir þig,ég hitti pabba þinn áðan og hann sagðist vera hættur við að leyfa þér að fara, því að það liti út fyrir þokugöngur og þar sem þú ert nú bara tíu ára pési er ekkert vit að fara með þig í göngur’’ skáldaði Óttar. En hversu oft sem hann var búinn að halda þessa ræðu yfir mér fór nú samt svo, að við Óttar fórum báðir í göngurnar, þó að
,,Grána gamla’’ lægi á fjöllunum, eins og hún var víst búin að gera undanfarna daga.
Í Dalsheiði fara 6 menn í fyrstu göngur.
Við lögðum af stað eftir hádegi og gerðum ekkert þann daginn annað en ríða inn í kofa, sem er um það bil 25 km leið. Reiðvegurinn er ekki góður, svo að oft varð að hvíla.
Ég hafði farið um sumarið með öðrum manni inn í kofa til þess að sækja ull, svo að ég var Óttari fremri í kunnáttu á örnefnum, þótt hann hafi farið í göngur áður, en ég ekki, því að enginn þekkti heiðina betur en Friðgeir, maðurinn sem ég fór með í ullarferðina.
Þegar á leiðarenda var komið, var hafist handa með að tjóðra hestana, á meðan sumir kveiktu upp í eldavélinni og báru inn eldiviðarpokana, sem klyfjahesturinn hafði orðið að rogast með að heiman. Þegar allir voru komnir í kofann var sest eða lagst niður og ,,etið og drukkið,og drukkið með ró’’ eins og stendur í kofabragnum sem er lýsing á göngum í Hvammsheiði, sem er samliggjandi Dalsheiði. Svefninn var ekki of mikill hjá mér þessa nótt, því að þegar maður var kannski rétt sofnaður, hrökk ég upp við það að maður rak sig út í rakan og kaldan moldarvegginn.Um birtingu risu menn upp og gáðu til veðurs.Skyggni reyndist ekki gott sökum þoku, eigi að síður mötuðust menn og lögðu á og héldu af stað.
Fyrst var riðið meðfram fjalli einu og síðan upp á það. Þegar þangað kom, tóku við urðir,samfelldir gróðurlitlir melar. Eftir þeim var farið í einn og hálfan klukkutíma og alltaf var þokan svo dimm, að rétt sást yfir þennan fámenna hóp ríðandi manna.
Ég vissi það, að Heljardalsfjöllin, en það eru þau, sem við áttum að fara inn að, voru í suður frá gangmannakofanum. Ekki gat ég samt að því gert, eftir að við vorum búnir að ríða í meira en klukkutíma eftir urðunum, að mér fannst við fara beint í norður,og eitt sinn, er við Óttar höfðum dregist ofurlítið afturúr, bar ég þetta upp við hann. Þá trúði hann mér fyrir því,að sér fyndist alveg það sama og mér, að við færum beint í norður.
Við komum okkur samt saman um, að orða þetta ekki við fullorðnu mennina,því það gæti varla verið, að Árni gangnaforingi og þeir hinir allir voru svo vanir heiðinni, væru orðir villtir.
Þegar þangað kom, er vanalegt var að menn skildu, var talað um, að það þýddi víst ekkert annað en fara sömu leið til baka út í kofa. En samt varð það úr, að Árni og Óttar skildu við okkur hina. Ég heyrði það á tali annara að þeir færu vestur, en ég var svo sjálfum mér samkvæmur, að finnast sem þeir færu í austur. Þegar við komum fast að fjöllunum, birti ofurlítið, svo að við sáum aðeins upp í fjallaræturnar. Ég hafði aldrei orðið áttavilltur áður, svo að mér fannst mjög óþægileg tilfinning fara um mig, þegar ég sá fjöllin norðan við mig.
að því er mér fannst. Einnig var það allt annað en þægilegt þegar við höfðum snúið við og vorum byrjaðir að svipast um eftir kindum,að þurfa fara að öllu þveröfugt við sína eigin tilfinningar. En ekki vorum við búnir að fara lengi út á við og enga kind var ég búin að finna,þegar þokan leystist upp og hvarf á ótrúlega stuttum tíma. Þá um leið tók heilinn í mér að starfa skynsamlega, og þegar maður var búinn að fá réttar áttir skildi maður ekkert í sjálfum sér að hafa fundist svona öfugt til um þær. N ú sá maður í fyrsta skipti landslag,sem maður var búinn að fara yfir, en hafði ekki hugmynd um, hvernig liti út í heild.
Brátt voru allir farnir að smala af fullum krafti,enda veður orðið ágætt til þess. Um morgunninn og á inneftir leiðinni hafði ávallt sitt sýnst hverjum,hvort ekki ætti bara að liggja í kofa frekar en vera að þvælast út í þokuna, sem sjálfsagt myndi ekki létta þann daginn, en að sjálfsögðu hafði gangnaforinginn úrskurðarvaldið, svo það mátti þakka honum, hvað vel þessi dagur hafði nýtst. Þegar lagst var til hvíldar þetta kvöld, sofnaði ég fljótar en kvöldið áður og svaf eins og ég væri í rúminu mínu, þar til ég var vakinn. Þá var kl.6 og nú þurfti að taka daginn snemma, því erfitt dagsverk var að smala heim, þó að þokan væri ekki til bölvunar.